Seðlabanki Íslands

Spurt er hvort Seðlabanki Íslands hafi sett sér stefnu um að fjárfesta ekki í sjóðum eða fyrirtækjum sem fjárfesta í eða vinna að verkefnum tengdum leit eða vinnslu jarðefnaeldsneytis. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort Seðlabankinn eigi bundið fé í slíkum fyrirtækjum eða sjóðum. Fjárfestingastefna gjaldeyrisforða Seðlabankans heimilar ekki fjárfestingar í slíkum sjóðum eða fyrirtækjum og því á bankinn ekki þess háttar eignir í gjaldeyrisforða sínum.

Fjárfestingastefna Seðlabankans byggir á þeim markmiðum sem bankanum eru sett í lögum. Hlutverk gjaldeyrisforðans er draga úr sveiflum á greiðslujöfnuði, draga úr líkum á að fjármagnshreyfingar til og frá landinu raski fjármálastöðugleika, tryggja að ríkissjóður geti staðið við erlendar skuldbindingar auk þess sem hann gegnir hlutverki öryggissjóðs sem hægt er að grípa til ef óvænt áföll trufla tímabundið öflun erlends gjaldeyris.

Vegna hlutverks gjaldeyrisforðans þurfa eignir hans að vera tryggar og auðseljanlegar og eru því fyrst og fremst skuldabréf ríkja með hátt lánshæfismat og djúpa fjármagnsmarkaði, innstæður í seðlabönkum og skuldabréf fjölþjóðastofnana sem sinna samfélagslegu hlutverki sem lánveitendur á alþjóðavísu. Útgefendur skuldabréfa í gjaldeyrisforða skulu vera aðilar að OECD en einnig er í gildi sérstök heimild til fjárfestinga í sjóði sem inniheldur kínversk ríkisskuldabréf og stýrt er af Alþjóðagreiðslubankanum í Sviss (BIS).

Seðlabankinn lítur svo á að markmði með varðveislu gjaldeyrisforða og ábyrgar fjárfestingar séu nátengdar og samrýmanlegar. Víðtækara umboð til fjárfestinga, t.d. í kjölfar endurskoðaðrar fjárfestingarstefnu, gæti þó kallað á sérstaka stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Slík reglusetning hefur verið til athugunar samhliða endurskoðun á fjárfestingastefnu bankans.

Seðlabankinn fylgist náið með þeirri þróun sem er að eiga sér stað á alþjóðavettvangi varðandi ábyrgar fjárfestingar. Sú vinna nær til samfélagslegrar ábyrgðar og umhverfismála en er ekki einskorðuð við álitamál tengd vinnslu jarðefnaeldsneytis. Bankinn tekur þátt í fundum ráðgjafanefndar Alþjóðagreiðslubankans um fyrirhugaðar sameiginlegar fjárfestingar seðlabanka heimsins í grænum skuldabréfum. Þá hefur bankinn fylgst með framtaki fjármálastofnana á Íslandi, IcelandSIF. Tilgangur þess er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgrar fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Slíkt getur verið mikilvægt út frá sjónarhóli fjármálastöðugleika. Þá hefur ríkisstjórn Íslands kynnt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem Seðlabankinn styðst einnig við sem leiðarljós í stefnumörkun tengdri fjárfestingum.

Mikil vinna á sér stað innan Evrópusambandsins varðandi sjálfbærni í tengslum við fjármálamarkaði (EU Action Plan on Sustainable Finance). Líklegt er að hún leiði til setningar reglna sem Ísland mun þurfa að innleiða sem aðili að evrópska efnahagssvæðinu.

Fjölþjóðastofnanir gegna sérstöku hlutverki í uppbyggingu og þróun á alþjóðlegum fjármálamarkaði, m.a. í fjármögnun á verkefnum sem tengjast leit eða vinnslu jarðefnaeldsneytis. Á undanförnum árum hefur orðið mikil vitundavakning og áherslur færst til sjálfbærari orkugjafa þegar fjármögnun verkefna er valin innan þessara stofnana. Alþjóðabankinn hefur t.d. ákveðið að frá og með 2020 verði fjármögnun á leit eða vinnslu jarðefnaeldsneytis hætt. Undantekning er gerð varðandi fátæk lönd þar sem ávinningur af aðgengi að orku er skýr. Seðlabankinn mun áfram fjárfesta í fjölþjóðastofnunum og vera þátttakandi í samtali við þessar stofnanir um ábyrgar fjárfestingar.

Hugmyndir og viðmið varðandi ábyrgar fjárfestingar eru enn í mótun og breytast hratt. Engar staðlaðar reglur og lausnir eru til staðar enn sem komið er. Seðlabankinn fylgist grannt með þróuninni og leitast við að samþætta ábyrgar fjárfestingar við starfsemi sína.