Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur sett sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar og á sú stefna m.a. við um erlendar fjárfestingar.  Með ábyrgum fjárfestingum er átt við að litið sé til umhverfislegra þátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta við mat, ákvörðun og eftirfylgni fjárfestinga LSR. Umhverfislegir þættar, félagslegir þættir og stjórnarhættir eru hluti af heildaráhættumati sjóðsins við fjárfestingaákvarðanir og eftirfylgni þeirra þar sem þessir þættir geta haft áhrif á ávöxtun og áhættu til lengri tíma.  Stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar er að finna á vefsíðu sjóðsins hér.

LSR á ekki beinan eignarhlut í erlendu fyrirtæki sem vinnur að verkefnum tengdum leit eða vinnslu jarðefnaeldsneytis. Þegar kemur að erlendum fjárfestingum fjárfestir LSR fyrst og fremst í sjóðum, s.s. verðbréfasjóðum. Við fjárfestingarákvarðanir í sjóðum er stefna LSR um ábyrgar fjárfestingar höfð til hliðsjónar.  Eins og fram kemur í þeirri stefnu leggur sjóðurinn áherslu á að erlendir samstarfsaðilar hafi sett sér virka stefnu í umhverfislegum þáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum og geti sýnt með greinargóðum hætti hvort og hvernig sé unnið eftir þeirri stefnu við mat og eftirfylgni fjárfestinga. Jafnframt er litið til þess hvort að viðkomandi samstarfsaðili hafi undirritað reglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI).

Alda sendi LSR aðra fyrirspurn þar sem spurt var hvort skilja eigi svarið með þeim hætti að í umræddum fjárfestingasjóðum geti leynst fyrirtæki sem starfa á sviði kolefnisvinnslu. Svar LSR er eftirfarandi:

Líkt og kemur fram í stefnu LSR um ábyrgar fjárfestingar þá leggur LSR áherslu á að erlendir samstarfsaðilar hafi sett sér virka stefnu í umhverfislegum þáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum og geti sýnt með greinargóðum hætti hvort og hvernig sé unnið eftir þeirri stefnu við mat og eftirfylgni fjárfestinga. Þegar kemur að erlendum fjárfestingum fjárfestir LSR fyrst og fremst í sjóðum, eins og fram kom í fyrra svari, s.s. verðbréfasjóðum og vísitölusjóðum.  Slíkir verðbréfa- og vísitölusjóðir samanstanda af fjöldamörgum félögum og því er ekki hægt að útiloka að þar sé mögulega að finna félög sem koma að verkefnum tengdum vinnslu á jarðefnaeldsneyti. Hlutfall slíkra eigna væri þó ætíð mjög óverulegt. Hinsvegar fjárfestir LSR ekki beint í þessháttar fyrirtækjum.