Íslenski lífeyrissjóðurinn

Íslenski lífeyrissjóðurinn hefur sett sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Stefnuna má finna á heimasíðu sjóðsins.

Í stefnunni segir m.a.: „Tilgangur stefnunnar er að búa til skilvirka og trúverðuga nálgun á álitaefnum er snúa að ábyrgum fjárfestingum en jafnframt að leitast við að ná ásættanlegri arðsemi af fjárfestingum lífeyrissjóðsins. Í stefnunni er lögð áhersla á virka upplýsingagjöf varðandi ábyrgar fjárfestingar. Slík upplýsingagjöf styður við greiningu, samanburð og mat á mismunandi fjárfestingakostum. Umhverfis- og samfélagsmál og stjórnarhættir eru allt mikilvægir liðir í mati lífeyrissjóðsins á fjárfestingum. Það er mat lífeyrissjóðsins að fyrirtæki sem taka tillit til þessara þátta í starfsemi sinni njóti ávinnings til lengri tíma litið.“

Í stefnu sjóðsins er aðferðafræði við mat á fjárfestingum skilgreind, en hún felur m.a. í sér virkar samræður og auka vitund hjá fjárfestum og hagsmunaaðilum á vægi ábyrgra fjárfestinga. Lögð er á áhersla á samþættingu umhverfismála, samfélagsmála og stjórnarhátta við greiningar á fjárfestingarkostum. Samkvæmt stefnunni áskilur sjóðurinn sér rétt að útiloka fyrirtæki úr fjárfestingarmengi sínu hafi fyrirtæki gerst brotlegt við landslög, alþjóðalög eða samninga sem Ísland hefur fullgilt. Samkvæmt stefnunni er slíkri útilokun fjárfestinga (neikvæðri skimun) beitt í undantekningartilfellum. Sjóðurinn hefur ekki útilokað neinar fjárfestingar enn sem komið er.  

Í samræmi við áður nefnda stefnu hefur Íslenski lífeyrissjóðurinn í auknum mæli fjárfest í sjóðum sem byggja alfarið á viðurkenndum viðmiðum ábyrgra fjárfestinga (ESG).  Íslenski lífeyrissjóðurinn á hvorki beina eign í erlendum félögum sem stunda einvörðungu leit og framleiðslu á jarðefnaeldsneyti né sjóðum sem fjárfesta einvörðungu í slíkri starfsemi.  Íslenski lífeyrissjóðurinn getur ekki útilokað að þeir erlendu sjóðir sem hann hefur fjárfest í eigi hlut í félagi eða félögum sem stunda leit eða vinnslu á jarðefnaeldsneyti. Slíkt óbeint eignarhald væri þó ætíð óverulegt. Þess má geta að öll erlend sjóðastýringarfyrirtæki sem Íslenski lífeyrissjóðurinn fjárfestir hjá eru aðilar að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UNPRI).