Íslandssjóðir

Við deilum áhyggjum ykkar af þróun í umhverfismálum og teljum að fjármálageirinn geti þar haft mikil áhrif. Þetta er ein af ástæðum þess að Íslandssjóðir hafa undirritað UN-PRI og sett sér stefnu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Þegar kemur að erlendum fjárfestingum fjárfestum við einungis í sjóðum og erum þar í samstarfi við Storebrand sem er norskt eignastýringarfyrirtæki og þekkt fyrir að vera mjög framarlega í ábyrgum og sjálfbærum fjárfestingum. Við höfum þróað okkar aðferðarfræði þegar kemur að ábyrgum fjárfestingum og notum m.a. útilokunarlista Storebrand en hann er enn ítarlegri en útilokunarlisti Norska olíusjóðsins.

Aðferðarfræði okkar snýr að því að meta hvernig sjóðir standa sig þegar kemur að ábyrgum og sjálfbærum fjárfestingum. Við notum greiningartæki Morningstar sem byggir á greiningum Sustainalytics og krefjumst þar hæstu einkunna í samanburði við aðra sjóði. Þegar við höfum fjárfest í sjóðum eða tökum ákvörðun um fjárfestingu þá horfum við á undirliggjandi eignir sjóðanna og skoðum þær út frá lista Storebrand. Ef eignir fara yfir 5% af eignasafni sjóðanna, þá er hann losaður út eða tekin ákvörðun um að fjárfesta ekki í honum. Ef hlutfallið er undir þessum mörkum þá sendum við fyrirspurn á sjóðafyrirtækið og leitum skýringa á fjárfestingunum út frá sjónarhorni ábyrgra og sjálfbærra fjárfestinga. Þannig leitumst við bæði við að hafa áhrif (e. engagement) auk þess að útiloka fjárfestingar. Við höfum fjárlosað (e.divest) sjóði sem ekki hafa uppfyllt kröfur okkar um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Við horfum hins vegar á fleiri þætti en umhverfisþætti við fjárfestingar. UFS (e.ESG) er samheiti yfir ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar en skammstöfunin stendur fyrir umhverfis- og félagslega þætti og stjórnarhætti.

Útilokunarlisti Storebrand: https://www.storebrand.no/en/sustainability/exclusions/_attachment/10739?_ts=169ed601a32