Almenni lífeyrissjóðurinn

Almenni lífeyrissjóðurinn hefur ekki sett sér sérstaka stefnu um að fjárfesta ekki í sjóðum eða fyrirtækjum sem fjárfesta í eða vinna að verkefnum tengdum leit eða vinnslu jarðefnaeldsneytis.

Almenni lífeyrissjóðurinn er langtímafjárfestir og meginmarkmið sjóðsins er að ávaxta fé sjóðfélaga á hagkvæman hátt í samræmi við fjárfestingarstefnu á hverjum tíma og tryggja sjóðfélögum sem hæstan lífeyri við starfslok. Lífeyrissjóðurinn telur að samfélagsleg ábyrgð sé mikilvæg forsenda fyrir því að fyrirtæki nái sjálfbærni og geti skilað góðri afkomu til langs tíma. Með samfélagslega ábyrgum fjárfestingum er átt við að horft sé til umhverfismála, félagslegra málefna og stjórnarhátta í fjárfestingum.

Almenni lífeyrissjóðurinn telur mikilvægt að fyrirtæki móti sér stefnu um umhverfismál, félagsleg málefni og stjórnarhætti. Markmiðið er m.a. að stuðla að sjálfbærri þróun og sjálfbærri nýtingu auðlinda, draga úr mengun, lágmarka starfsemi sem er skaðleg fyrir umhverfið, virða mannréttindi og réttindi starfsfólks og að innleiða góða stjórnarhætti. Við mat á fjárfestingum sjóðsins er m.a. horft til viðmiðunarreglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN Principle of responsible investment). Í reglunum er fjallað um hvernig áhersla á umhverfismál, félagsleg málefni og góða stjórnarhætti fyrirtækja getur stuðlað að betri ávöxtun fjárfesta.

Almenni lífeyrissjóðurinn fylgir eftir stefnu um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar með því að greina sérstaklega við mat á fjárfestingarkostum, hvort og hvaða stefnu útgefandi verðbréfa hefur um umhverfismál, félagsleg málefni og stjórnarhætti. Það á einnig við um fjárfestingu í innlendum og erlendum sjóðum en þá er kannað hvort rekstraraðili hafi mótað stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Ekki er sett skilyrði um slíka stefnu þegar fjárfestingarákvörðun er tekin, en könnun hennar er hluti af heildarmati á viðkomandi fjárfestingarkosti.

Upplýsingar um fjárfestingar sjóðsins eru í ársreikningi og á heimasíðu þar sem fjallað er um einstakar ávöxtunarleiðir.  Jafnframt er á heimasíðu sjóðsins að finna fjárfestingarstefnuna í heild sinni.

(Athugsemd frá Öldu: Almenni lífeyrissjóðurinn svarar ekki síðari spurningunni, þ.e. hvort sjóðurinn eigi bundið fé í fyrirtækjum eða sjóðum sem fjárfesta í vinnslu kolefnis. Alda hefur því sent lífeyrissjóðnum tölvupóst þar sem þessi fyrirspurn er áréttuð).