Fjárfesta lífeyrissjóðir og bankar í kolefnisframleiðslu?

Sú krafa hefur orðið háværari á undanförnum árum að fjármálastofnanir hætti að fjárfesta í fyrirtækjum sem tengjast vinnslu jarðefnaeldsneytis, enda ljóst að ef brenndar verða allar þekktar birgðir olíu, gass og kola í jarðskorpunni verður ekki unnt að forða mannkyni frá öfgakenndum loftslagsbreytingum. Ör hlýnun loftslagsins getur haft neikvæð áhrif á efnahagslegt öryggi hér á landi, m.a. með bráðnun jökla og súrnun sjávar, og dregið verulega úr lífsgæðum.

Ríflega þúsund erlendar fjármálastofnanir hafa brugðist við þessari áskorun með því að veita fjárfestingum sínum í annan farveg, nú nýverið lífeyrissjóðurinn New York State Common Retirement Fund, þýska tryggingafélagið Allianz og Norski olíusjóðurinn (Statens pensjonfond), sem tilkynnti í mars þá ákvörðun sína að selja hlutabréf í fyrirtækjum sem stunda einvörðungu leit og framleiðslu á jarðefnaeldsneyti.

Hér á landi hefur lítið farið fyrir umræðu um áhrif loftslagsbreytinga á fjárfestingastefnu fjármálastofnana þótt fullt tilefni sé til þar sem Íslendingar fjárfesta umtalsvert í erlendum fyrirtækjum, sjóðum og bréfum. Erlendar eignir lífeyrissjóðanna eru til að mynda rúmir 1.100 milljarðar króna og fara vaxandi og erlendar eignir Seðlabankans munu vera nærri 700 milljörðum.

Ljóst er að almenningur gerir auknar kröfur um að fyrirtæki sýni ábyrgð í  loftslagsmálum. Samkvæmt nýjustu umhverfiskönnun Gallup segja 86% aðspurðra það skipta miklu máli að fyrirtæki hrindi í framkvæmd aðgerðum sem hafa jákvæð áhrif á sviði loftslagsmála og einungis 17% telja fjármálageirann ná árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, Landvernd, Foreldrar fyrir framtíðina og Ungir umhverfissinnar leitast nú við að afla upplýsinga um erlendar fjárfestingar Íslendinga sem tengjast vinnslu jarðefnaeldsneytis. Þess vegna óskar félagið eftir upplýsingum um það hvort íslensk fjármálafyrirtæki hafi sett sér stefnu um að fjárfesta ekki í sjóðum eða fyrirtækjum sem fjárfesta í eða vinna að verkefnum tengdum leit eða vinnslu jarðefnaeldsneytis. Einnig er farið fram á upplýsingar um það hvort fjármálafyrirtækin eigi bundið fé í slíkum fyrirtækjum eða sjóðum.

Aðstandendur

Það eru Aldan – félag um sjálfbærni og lýðræði, í samstarfi við Landvernd, Foreldra fyrir framtíðina og Unga umhverfissinna, sem krefur íslensk fjármálafyrirtæki um upplýsingar um fjárfestingar þeirra í kolefnisvinnslu. Öll fjármálafyrirtæki innan vébanda Landssamtaka lífeyrissjóða og Samtaka fjármálafyrirtækja, auk Seðlabanka Íslands, fengu senda fyrirspurn.